English

Imagine Peace

Hugmyndin að Friðarsúlunni (Imagine Peace Tower) vaknaði hjá Yoko Ono fyrir meira en fjörutíu árum. Þegar hún kynntist John Lennon stakk hann upp á því að hún setti verkið upp í garðinum hjá sér. Verkið varð svo að veruleika í Viðey árið 2007 og er tileinkað minningu John Lennon og þeim friðarboðskap sem þau tvö unnu svo ötullega við að breiða út.

Myndin rekur hugmyndina að Friðarsúlunni og söguna af því hvernig hún varð til hér uppi á Íslandi. Þetta lýsandi listaverk er liður í langri þróun í myndlist Yoko Ono sem hóf feril sinn í Japan á sjötta áratugnum og var uppúr 1960 orðin vel þekkt innan alþjóðlegu framúrstefnulistarinnar. Hún starfaði og sýndi með listamönnum á borð við Joseph Beuys og John Cage og var einn af meðlimum Fluxus-hreyfingarinnar í myndlist sem átti eftir að hafa mikil áhrif á Íslandi í gegnum Dieter Roth og fleiri listamenn. Yoko Ono hélt áfram að starfa að list sinni eftir að hún kynntist John Lennon, auk þess að vinna með honum að tónlist, kvikmyndum og ýmsum verkefnum. Verk hennar hafa verið sýnd í mörgum helstu listasöfnum heims.

Í myndinni segir Yoko Ono frá baráttu sinni og John Lennon fyrir friði og réttlæti og þeim aðferðum sem þau beittu til að koma boðskapnum á framfæri. Myndin var fjögur ár í vinnslu og er efnið dregið víða að. Í gegnum ný viðtöl og gamalt myndefni kynnumst við veröld og hugmyndum þessarar óþreytandi lista- og baráttukonu sem skapaði eitt sérstæðasta og athyglisverðasta almenningslistaverk sitt hér í Reykjavík.

Um myndina

  • Flokkur
    Heimildamynd
  • Frumsýnd
    8. október, 2010, Bíó Paradís
  • Lengd
    40 mín.
  • Tungumál
    Enska
  • Titill
    Imagine Peace
  • Alþjóðlegur titill
    Imagine Peace
  • Framleiðsluár
    2010
  • Framleiðslulönd
    Ísland
  • KMÍ styrkur
    Nei
  • Upptökutækni
    HD
  • Myndsnið
    1.85:1
  • Litur
  • Hljóð
    Dolby Digital

Fyrirtæki

Þátttaka á hátíðum

  • 2016
    Mirgorod Film Festival, Poltava, Úkraína
  • 2011
    Warsaw Film Festival


Stikla