English

Samræða um kvikmyndir

Samræða um kvikmyndir er heimildamynd um svo til órannsakaðan þátt íslenskrar menningar: kvikmyndasögu.

Þorgeir ræðir í myndinni um þróun innlendra kvikmynda, allt frá svo kölluðum frumkvöðlum, eins og fyrstu amatörarnir hér hafa verið nefndir og til bíómynda dagsins í dag. Í máli Þorgeirs sameinast fagþekking kvikmyndamanns og glöggskyggni andófsmanns, svo úr verður, ekki bara skörp greining á íslenskri kvikmyndagerð, heldur líka gráglettin mynd af „sparifataþjóðinni“ allri.

Samræða um kvikmyndir er þannig einstök heimild um jarðveginn sem fyrstu tilraunirnar hérlendis til faglegrar og sjálfstæðrar kvikmyndagerðar spruttu úr og hugmyndalegan bakgrunn þeirra. Auk nokkurra hálfgleymdra grundvallaratriða kvikmyndafræðanna eru rifjaðar upp aðstæður til kvikmyndagerðar hér undir ráðstjórn sjónvarps- og auglýsingagerðarmanna á sjöunda áratug seinustu aldar; tækniþjónusta, fjármögnun og „allt of stórar hugmyndir“ sponsoranna um hvað ætti að koma fram. Vegna hins síðast talda telur Þorgeir að heilsteypt framlag sitt til kvikmyndagerðar sé í raun ekki nema tíu mínútur á þeim tíu árum sem hann stundaði sjálfstæða kvikmyndagerð en það er sýningartími Manns og verksmiðju, einu myndarinnar sem hann telur fullnægja þeim standardi sem hann vill hafa á verkum eftir sig. Hann bannar því sýningar á öðrum kvikmyndum sínum, í heild, þó hann varðveiti það efni enn sem komið er.

Í Samræðu um kvikmyndir skýrir Þorgeir fræðilegar undirstöður Manns og verksmiðju sem hefur notið almennrar viðurkenningar hér og erlendis alveg frá því fyrst að hún kom út. Hann kallar þetta verk sitt tilraun til að lýsa veröld síldarverksmiðjunnar með því að leiða saman erkiandstæður „ejsensteinskrar klippingar“ og „pasólínskrar myndatöku“. Úr því spratt eitthvað „nýstárlegt, kraftmikið og óvænt“, ekki bara í íslenskri kvikmyndagerð heldur í kvikmyndagerð almennt, ef marka má tilvitnuð ummæli Johns Griersons, Eiðs Guðnasonar og fleiri um Mann og verksmiðju á sínum tíma

Í Samræðu um kvikmyndir leggja höfundarnir, Ari Halldórsson og Hákon Már Oddsson, áherslu á þann einfaldleika sem best skilar náttúrlegri og trúverðugri frásögn Þorgeirs.

Aðstandendur og starfslið

Um myndina

 • Flokkur
  Heimildamynd
 • Frumsýnd
  19. maí, 2002, Háskólabíó
 • Lengd
  48 mín.
 • Tungumál
  Íslenska
 • Titill
  Samræða um kvikmyndir
 • Alþjóðlegur titill
  Discourse on Films
 • Framleiðsluár
  2002
 • Framleiðslulönd
  Ísland
 • Vefsíða
 • KMÍ styrkur
 • Upptökutækni
  DV
 • Litur

Fyrirtæki

Útgáfur

 • Leshús, 2002 - VHS