English

Sjanghæjað til sjós

Síðutogararnir komu til landsins í kringum miðja 20.öld og færðu um árabil óhemju mikinn auð í þjóðarbúið. Barist var um plássin um borð og valinn maður í hverju rúmi til að byrja með. Þeirra var gjarnan minnst í milljónum slagara frá tímabilinu sem hetja hafsins, líf þeirra „draumur hins djarfa manns“, eins og stóð í einum rómantíska bulltextanum um þessa ágætu stétt.

En togaralífið átti sínar dökku hliðar eins og annað hér í heimi og fjallar heimildamyndin Sjanghæjað til sjós um neikvæðar afleiðingar sem fylgdu miklum þjóðfélagsbreytingum upp úr 1960. Þær stöfuðu meðal annars af minnkandi veiði á karfa og öðrum fiskistofnum síðutogaranna, á meðan síldin tók að vaða á land hirti síldveiðiflotinn bestu sjómennina. Togararnir gerðust úreltir og jafnan erfiðir og hættulegir og þegar hér var komið sögu urðu útgerðir og skipstjórar að grípa til ódýrra meðala til að ná löglegum áhafnarfjölda, sem gat farið upp í 50 á löngum saltfisktúrum.

Oftast vantaði fimm til tíu menn þegar leggja átti úr höfn og þau Margrét og Magnús hafa náð í nokkra roskna togarasjómenn úr yfirmanna- og hásetastétt, sem upplifðu þessi ár, sem sumir nefna niðurlægingartíma í íslenskri útgerðarsögu. Til að ná upp í hausatöluna smöluðu skipstjórnarmenn veitingastaði miðborgarinnar, Adlon, Langabar og Brytann, svo nokkrir séu nefndir af þeim sem almennt voru kallaðir rónabúllur. Óbrigðul aðferðin jafnan sú sama, aflsmunur og brennivín – og partýið endaði við Vestur-Grænland eða á Jónsmiðum á 10 vikna saltfisktúr. Önnur vinsæl áhafnaruppspretta var hegningarhúsið við Skólavörðustíg, þar sem greidd var sektin sem fanginn var að dúsa af sér.

Allt þetta kemur fram í Sjanghæjað til sjós, aukin heldur að það orð sem löngum hefur loðað við togarasjómannastétt þessara tíma, að þeir hafi verið upp til hópa einskis nýtir drykkjumenn, er orðum aukið. Myndin dregur það skýrt fram í mörgum og hressilegum viðtölum við menn úr öllum stéttum togaraflotans. Togaramenn voru margir hverjir öskufullir og áberandi þessa tvo daga í inniverunni, en voru þá búnir að vera vikum saman edrú. Enginn velti því fyrir sér að þeir drukku aðeins tvo daga í mánuði, vissulega illa, en flestir landkrabbar gerðu gott betur – án þess að til þess væri tekið.

Sölutúrarnir eru rifjaðir upp, þá var siglt með aflann til Englands eða Þýskalands og voru mikið aðdráttarafl landluktum eyjarskeggjum. Þá keyptu menn prelúdín eftir vigt í þýskum apótekum og bruddu ótæpilega, eitthvað gekk á hýruna í Herbertstrasse. Þess á milli, eftir að hafa hrist af sér heljarþynnku á tveimur, þremur dögum, börðust þessir dugnaðarforkar við óblíð veður á illa búnum skipum við erfið störf. Þar leið þeim best, sjórinn var lífið, landlegur kryddið í tilveruna.

Um myndina

 • Flokkur
  Heimildamynd
 • Frumsýnd
  3. júní, 2007
 • Tegund
  Drama
 • Lengd
  52 mín.
 • Tungumál
  Íslenska
 • Titill
  Sjanghæjað til sjós
 • Alþjóðlegur titill
  Shanghaiing Days
 • Framleiðsluár
  2007
 • Framleiðslulönd
  Ísland
 • Frumsýningarstöð
  RÚV
 • KMÍ styrkur
 • Upptökutækni
  DV
 • Litur

Fyrirtæki