English

Gríp ég því hatt minn og staf

Hin mörgu lög sögunnar eru tvinnuð saman í Sveini, upphaf ævi hans endurspeglar íslenskt þjóðfélag sem er enn á miðaldastigi. Lærdómsáhugi Sveins er ekki umborinn og hann talinn latur, hann verður að brjótast til mennta á eigin krafti. Skólaár hans á Akureyri mótast að hluta af hörðum stéttaátökum (hann verður vitni að Novuslagnum) á tímum kreppunnar miklu og hann tekur þátt í stofnun Kommúnistaflokks Íslands 1930, aðeins 23 ára gamall. Eftir nám í Háskóla Íslands heldur Sveinn út í heim til frekari landvinninga. Stórpólitískir atburðir krauma þá undir yfirborði evrópsks stjórnmálalífs. Sveinn lendir í hringiðu heimsstyrjaldar, hann er vitni að lífi þýsku þjóðarinnar á örlagatímum nasismans og hann upplýsir okkur um Íslendingana sem þar búa. Kalda stríðið skellur á og eftir tilraunir til að hasla sér völl sem virtur fræðimaður í heimalandi sínu „grípur hann hatt sinn og staf“ og kveður ættjörðina. Gamli sósíalistinn lifir sína starfsævi í þýska alþýðulýðveldinu, á bak við múrinn - og þar dó hann skömmu áður en múrinn féll - en Sveinn átti þá ósk heitasta á sínu ævikvöldi að deyja heima á ættjörð sinni. Aska hans var send heim og var grafin í Fossvogskirkjugarði.

Kvikmyndin um Svein Bergsveinsson segir sögu einstaklings, en leiðir okkur jafnframt í gegnum viðburðaríkt tímabil mannkynssögunnar. Sýn einstaklingsins á atburðina hjálpar nútímamönnum að skilja betur hvernig átök aldarinnar gátu stjórnað örlögum manna eins og Sveins. Sagan er sögð í gegnum reynslu Önnu Kristínar, frænku Sveins. Fimm kassar með margvíslegum gögnum eru sendir til hennar frá A-Þýskalandi að honum látnum. Könnun á innihaldi kassanna opnar Önnu nýja sýn á ævi frænda síns og úr þeirri könnun sprettur þessi kvikmynd.

Um myndina

  • Flokkur
    Heimildamynd
  • Lengd
    55 mín.
  • Tungumál
    Íslenska
  • Titill
    Gríp ég því hatt minn og staf
  • Alþjóðlegur titill
    In Exile Thinking of Home
  • Framleiðsluár
    2010
  • Framleiðslulönd
    Ísland
  • Vefsíða
  • KMÍ styrkur
  • Upptökutækni
    HDV
  • Myndsnið
    16:9
  • Litur

Fyrirtæki

Þátttaka á hátíðum

  • 2010
    Nordland Art Festival

Útgáfur

  • Seylan ehf., 2010 - DVD