English

Ása Helga Hjörleifsdóttir

Curriculum Vitae

    Einnig titlaður sem: Ása Hjörleifsdóttir
  • Netfang
    asahjorleifs@gmail.com

Ása Helga Hjörleifsdóttir er handritshöfundur og leikstjóri, fædd árið 1984. Hún lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og vann um tíma við bókagagnrýni og útvarpsþáttagerð á RÚV. Árið 2008 flutti hún til New York til að læra kvikmyndagerð í Columbia háskóla, og lauk þaðan MFA prófi með ágætiseinkunn vorið 2012.
Ása hefur skrifað og leikstýrt fjölda stuttmynda, og ber þá helst að nefna verðlaunamyndirnar „Ástarsaga“ (2012, sem komst m.a. í lokaúrtak fyrir Óskarverðlaunin í flokki útskriftarmynda úr kvikmyndaskólum), og „Þú og ég“ (2015). Fyrsta kvikmynd Ásu í fullri lengd, „Svanurinn“, hennar aðlögun á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto 2017, ferðaðist um heim allan og vann til fjölda verðlauna. Í september 2022 var nýjasta kvikmynd Ásu, „Svar við bréfi Helgu” frumsýnd á Íslandi og síðar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tallinn, en myndin ferðast nú á milli kvikmyndahátíða erlendis.
Samhliða kvikmyndaverkefnum hefur Ása Helga starfað með myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni, og leikstýrði nú síðast umfangsmiklu vídjó- og performans verki hans Santa Barbara í Moskvu sem stóð yfir frá 4. desember 2021 til 24. febrúar 2022. Í janúar 2023 var Ása Helga ráðin sem dósent við nýstofnaða Kvikmyndadeild Listaháskóla Íslands. Ása er búsett í Reykjavík með manni sínum og tveimur sonum.