English

Draumurinn um veginn: 2. hluti - Arfleifðin í farteskinu

Í Arfleifðinni í farteskinu heldur Thor áfram göngu sinni um Rioja-héraðið á Spáni og sem leið liggur inn í Kastilíu. Þar verður höfuðborgin Burgos skáldinu áhrifamikill viðkomustaður. Eftir Burgos skiptast á fjölbreytileg þorp og kornakrar spönsku hásléttunnar (Mezeta) en Arfleifðinni í farteskinu lýkur í bænum Fromista í Palenciu-héraði. Um 345 km eru þá að baki af þeim 800 km sem Thor hefur einsett sér að ganga á Jakobsveginum. Inn í ferðina fléttast endurlit að heiman og tengingar við skáldverk Thors eins og Sveig, Regn á rykið, Foldu og Morgunþulu í stráum.??Með pílagrímsgöngu sinni og skýrgreiningu á sjálfum sér sem menningarpílagrími lætur Thor Vilhjálmsson, einn helsti brautryðjandi nútímaskáldsögunnar á Íslandi, 40 ára draum sinn um að ganga hinn forna, 800 km langa forna pílagrímaveg til heilags Jakobs eftir endilöngum norður-Spáni, rætast og það á árinu sem hann verður áttræður. Með því sannar hann það sem stundum hefur verið haldið fram, að það sé aldrei of seint að láta drauma sína rætast. Hann er uppfullur löngunar um að fá vitneskju um hvað muni gerast innra með honum á göngunni þar sem hann á í vændum samneyti við pílagríma og samræður við íbúa héraðanna sem leiðin liggur um. Landslag leiðarinnar og menningararfleifð hefur djúp áhrif á hann en fullyrt er að vitund Evrópubúa fyrir sameiginlegum rótum sínum eigi rætur að rekja til pílagrímaleiða Evrópu á miðöldum. Á veginum er eins og nútíð og fortíð renni saman í eitt, enda koma í hugann íslenskir miðaldatextar sem tengdir eru veginum, jafnhliða því að Thor finnst á stundum eins og hann sá staddur inni í atriðum úr eigin bókarköflum. Hugarmyndin af forfeðrunum, sem gengið hafa veginn áður, skýrist og smám saman glæðir ferðin, sem er eitt helsta stefið í höfundarverki Thors, tilfinningu hans fyrir því, að pílagrímsgangan feli í sér táknmynd sjálfrar lífsgöngunnar.

Um myndina

  • Flokkur
    Heimildamynd
  • Frumsýnd
    15. apríl, 2011, Bíó Paradís
  • Lengd
    107 mín.
  • Tungumál
    Enska, Þýska, Spænska, Íslenska
  • Titill
    Draumurinn um veginn: 2. hluti - Arfleifðin í farteskinu
  • Alþjóðlegur titill
    Dream of the Way: Part 2 - Heritage
  • Framleiðsluár
    2011
  • Framleiðslulönd
    Ísland
  • Fjöldi þátta í seríu
    5
  • KMÍ styrkur
  • Upptökutækni
    HDV, DVCAM
  • Myndsnið
    16:9
  • Litur
  • Hljóð
    Stereo